Cover: Til hinstu stundar - Einkaritari Hitlers segir frá by  Melissa Muller, Traudl Junge

Melissa Muller

Til hinstu stundar - Einkaritari Hitlers segir frá

 

Saga

„Við getum ekki leiðrétt ævi okkar eftir á, heldur verðum við að lifa með henni. Hinsvegar getum við leiðrétt okkur sjálf.”

Reiner Kunze

Formáli

eftir Traudl Junge

Þessi bók er engin síðbúin réttlæting. Engin sjálfsásökun. Ég vil heldur ekki að hún verði skilin sem lífsjátning. Hún er miklu fremur tilraun til að sættast, ekki við samferðafólk mitt, heldur við sjálfa mig. Henni er ekki ætlað að falast eftir skilningi, heldur á hún sjálf að hjálpa öðrum til að skilja.

Ég var einkaritari Hitlers í tvö og hálft ár. Að öðru leyti hefur líf mitt verið fremur fábrotið. Á árunum 1947-48 skrásetti ég endurminningar mínar um líf mitt í nærveru Hitlers sem þá voru enn mjög ferskar. Þetta var á þeim tíma þegar við öll horfðum fram á við og gerðum lítið úr þeirri reynslu sem við höfðum orðið fyrir og reyndum jafnvel að gleyma henni – með furðulega góðum árangri. Á þessum tíma gekk ég hispurslaust til verks, með þeim ásetningi einum að halda til haga mikilvægustu viðburðum og atvikum þessa tímabils, áður en einstök smáatriði, sem seinna gætu þótt áhugaverð, fölnuðu í minninu eða féllu jafnvel alveg í gleymsku.

Þegar ég las handritið aftur, nokkrum áratugum seinna, brá mér í brún og ég skammaðist mín fyrir það hvað ég hafði gengið umhugsunar- og gagnrýnislaust til verks á sínum tíma. Hvernig í ósköpunum gat ég verið svona barnaleg og kærulaus? Það er hinsvegar aðeins ein af ástæðunum fyrir því að ég hef fram að þessu ekki viljað leyfa að handritið væri prentað í heimalandi mínu. Önnur ástæðan er sú að andspænis öllum þeim fjölda bóka um Adolf Hitler og þúsundáraríkið hans, sem hefur flætt yfir okkur eftir hrun Þriðja ríkisins, fannst mér örlög mín og endurminningar ekki nógu merkilegt efni. Þar við bætist að ég hafði áhyggjur af því að óæskilegir aðilar myndu grípa þessa frásögn mína á lofti og gera sér mat úr henni.

Ég hef aldrei reynt að draga fjöður yfir fortíð mína, en þó verður að segjast að viðmót fólks í minn garð, á árunum eftir stríð, auðveldaði mér mjög að bægja henni frá: Það var sagt að ég hefði verið of ung og óreynd til að sjá í gegnum yfirboðara minn, sem undir góðborgaralegu yfirbragði hafi verið gagntekinn af glæpsamlegri valdafíkn. Þetta var ekki aðeins skoðun nefndarinnar, sem hafði það hlutverk að uppræta nasismann, og sem bar blak af mér sem meðreiðarsveini. Þetta var líka skoðun allra sem ég þekkti og deildi reynslu minni með, ekki bara þeirra sem voru sjálfir sakaðir um að hafa tekið þátt, heldur líka hinna sem höfðu verið ofsóttir af stjórnvöldum. Ég var alltof viljug til að fallast á þessa sakaruppgjöf. Þegar allt kom til alls var ég nýbúin að halda upp á 25 ára afmælið mitt, þegar Þýskaland nasismans hrundi til grunna, og þá komst ekkert að hjá mér nema eitt: Að lifa.

Það var ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem ég byrjaði smám saman að horfast af fullri alvöru í augu við fortíð mína og þá sektarkennd sem fór að láta á sér kræla í auknum mæli. Undanfarin 35 ár hefur þessi sektarkennd orðið sífellt sársaukafyllri, mér hefur reynst sífellt erfiðara að skilja sjálfa mig og það sem mér gekk til á sínum tíma. Ég hef lært að sætta mig við að ég skyldi árið 1942, 22 ára stúlkan, full af ævintýraþrá, hafa heillast af Adolf Hitler, að mér skyldi hafa fundist hann þægilegur yfirmaður og föðurlegur vinur, og að ég skyldi af ásettu ráði hafa skellt skollaeyrum við rödd í brjósti mínu, sem varaði mig við, og þess í stað notið samvistanna við Hitler allt þar til yfir lauk. Eftir að glæpir þessa manns voru afhjúpaðir verð ég að lifa til hinstu stundar með þeirri tilfinningu að ég hafi verið meðsek.

Fyrir tveimur árum kynntist ég rithöfundinum Melissu Müller. Hún heimsótti mig til að spyrja mig, sem samtíðarmann, nokkurra spurninga um Adolf Hitler og listrænan áhuga hans. Þetta samtal varð að fleirum, þar sem við ræddum líf mitt og þau áhrif sem kynni mín af Hitler höfðu á mig, þegar til lengri tíma var litið. Melissa Müller er af seinni eftirstríðsárakynslóðinni, sýn hennar er mótuð af þekkingu sem hún hefur aflað sér um glæpsamleg athæfi í Þriðja ríkinu. Hún er hinsvegar ekki ein þeirra sem þykjast vita allt betur eftir á. Hún fer ekki svo auðvelda leið. Hún hlustar á það sem við, sem vorum eitt sinn heilluð af Foringjanum, höfum að segja og reynir síðan að skilja, hvernig þetta gat gerst.

„Við getum ekki leiðrétt ævi okkar eftir á, heldur verðum við að lifa með henni. Hinsvegar getum við leiðrétt okkur sjálf.” Þessi tilvitnun úr Dagbók eins árs eftir Reiner Kunze hefur orðið að einkunnarorðum lífs míns. „Við getum ekki alltaf vænst þess að fólk falli opinberlega á kné fyrir framan okkur,” heldur Kunze áfram. „Það er til þögul skömm, sem segir meira en öll orð – og er stundum einlægari.” Melissu Müller tókst að lokum að sannfæra mig um, að hvað sem tautaði og raulaði, þá væri rétt af mér að leyfa að handrit mitt yrði gefið út. Ég hugsaði með mér að úr því að mér tækist að gera henni skiljanlegt, hversu auðvelt það var að heillast af Hitler, og hversu erfitt það er að lifa í þeirri vissu að hafa þjónað fjöldamorðingja, þá hlyti líka að vera hægt að gera lesendum þetta skiljanlegt. Það er í það minnsta von mín.

Ásíðasta ári kynnti Melissa Müller mig fyrir André Heller, sem ég tel ekki aðeins vera óvenju spennandi listamann, heldur jafnframt mjög velviljaða og staðfasta manneskju í pólitísku og siðferðilegu tilliti. Þær innilegu samræður sem ég átti við hann voru enn ein óendanlega mikilvæg hvatningin til að gera upp sakirnar við stúlkuna Traudl Humps, sem ég hafði svo lengi verið ósátt við. Stór hluti af samtölum okkar átti sér stað fyrir framan sjónvarpsmyndavélar. Úr þessum upptökum bjuggu André Heller og Ortthmar Schmiderer til heimildamyndina Im toten Winkel, sem kemur fyrir sjónir almennings samhliða þessari bók.

Í bókinni sem hér fer á eftir tala hin unga Traudl og hin aldna Traudl á víxl. Hin unga Traudl hefur látið tilleiðast að gefa út endurminningar sínar, vegna mikils og sívaxandi áhuga á vitneskju þeirra sem þekktu náið til í innstra hring nasistastjórnarinnar, og hún vonar að þessi texti varpi betra ljósi á viss atriði. Hin aldna Traudl vill alls ekki vera neinn siðferðispostuli, samt vonast hún til að geta komið nokkrum hugmyndum á framfæri sem séu ekki jafn yfirborðslegar og þær virðast við fyrstu sýn: Fallegar framhliðar geta villt mönnum sýn, það borgar sig alltaf að skyggnast á bak við þær. Manneskjan á að hlusta á rödd samvisku sinnar. Fólk þarf ekki nærri jafn mikinn kjark og það heldur til að gangast við eigin yfirsjónum og læra af þeim. Manneskjan er í heiminum til að þroskast við að læra af reynslunni.

Traudl Junge
í janúar 2002